Fréttatilkynning

Þar sem einhverjir hafa kvartað yfir því hér sé ekki uppfært nóg er hér með bent á eftirfarandi staðreyndir.

  • Fór í bakinu og undanfarna daga hef ég ekki getað setið í stól lengur en 1-2 mínútur í einu.
  • Það er heimsmeistarkeppni í handbolta.

Annað var það ekki..................


Klofarokk

Þá er það ákveðið að Rokkkvintettinn Ólafía mun standa fyrir og spila á Klofarokki 2007. Mæli með því að lesendur kíki á heimasíðu hátíðarinnar og skrái sig til þáttöku.

Helvítis.

Hef átt erfitt undanfarna daga. Búinn að vera miður mín eftir tvo tapleiki minna manna í Liverpool gegn ungliðum Arsenal. Sé ekki til sólar.

Að lokum legg ég til að Benites verði rekinn.

Annað var það ekki......

 


Listar ársins 2. hluti

Fimm bestu plöturnar:

  1. Black Holes and Revelations - Muse (Óumdeilanlega plata ársins)
  2. Ópus 6 - Todmobile (Frábær í alla staði)
  3. Stadium Arcadium - Red hot Chili peppers (Meistaraverk)
  4. Aparnir í Eden - Baggalútur (Þó það væri ekki nema bara fyrir nafnið)
  5. American V - Johnny Cash (Uppgötvaði Mr. Cash á árinu)

Annað var það ekki.........


Villi Vill og spilakassarnir.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur undanfarna daga farið fyrir þeim íbúum Breiðholts sem vilja ekki fá spilakassavíti í Mjóddina.

Ég er í sjálfu sér sammála þeim rökum sem ég hef heyrt hann setja fram, um að spilakassarnir hafi lagt líf fólks í rúst og eftir sitja fjölskyldur í sárum og að svona rekstur hafi ekkert að gera í nágrenni skóla og í íbúðahverfum. Mér hefur líka alltaf þótt undarlegt að samtök eins og SÁÁ og Háskólinn skuli vera þeir aðilar sem reka batteríið.

Mér finnst þessi umræða hins vegar merkileg út frá því að það er fyrst núna sem menn taka við sér og eru á móti þessum stöðum en fannst ekkert að því þegar sambærilegir staðir spruttu upp í öðrum íbúðahverfum. Gæti það verið að Borgarstjóri allra Reykvíkinga hafi ekki haft áhyggjur af málinu fyrr en átti að opna einn í bakgarðinum hjá honum sjálfum?

Annað var það ekki...........


Subba Sveins

Móðir mín tjáði mér að Subba nokkur Sveins hefði verið til og að hún hefði þekkt hana. Var víst frekar subbulegur kvennmaður. Bestía er hins vegar ekki raunverlulegur kvennmaður né Ibba gogg þó að einhver okkar kannist við aðra Ibbu.

Annað var það ekki.............


Listar ársins hluti 1

Við áramót er greinilega siður að setja saman lista. Þar sem lesendur mínir vita að ég er maður með mönnum mun ég á næstu dögum setja hér upp topp fimm lista síðasta árs.

Topp 5 bloggin mín á síðasta ári (birt í tímaröð)

Nýtt ár...bútur

Published þriðjudagur, janúar 06, 2006 by Lavi.  

Annars hef ég verið að finna fyrir mikilli þörf hjá mér nú á nýju ári til framkvæmda. Við höfum endanlega gefið flutninga upp á bátinn þrátt fyrir skrautlegar uppákomur á efri hæðinni. Eins og áður hefur verið póstað þá tók fyllibyttan á efri hæðinni sig upp og flúði til Amríku. Sprautufíkillinn Rónabróðir fór hins vegar að venja komur sínar í íbúðina ásamt félögum. Það þótti því vera ástæða til gleði þegar fréttist af tilvonandi sölu íbúðarinnar. "Bara dagaspursmál hvenær skrifað verður undir" sagði frændinn sem sá um sölu íbúðarinnar, "já, og hún á að standa tóm og enginn að vera þar þangað til nýjir íbúar flytja inn". Urðum við því hissa einn morguninn þegar hljóð berast af efri hæðinni og eftir að hafa fengið staðfestingu frá frændanum seinna um daginn að enginn ætti að vera þar hringdum við í lögregluna og tilkynntum um umgang. Þegar við komum heim úr vinnu þann daginn var allt með kyrrum kjörum en rétt fyrir miðnætti hringir bjallan og stendur þar bróðirinn ásamt tveimur frekar skuggalegum mönnum. "Gúlp" hugsaði ég. "Ég frétti að það hefðuð verið þið sem hringduð og kvörtuðuð í lögregluna". "Gúlp, gúlp" hugsaði ég í þetta skiptið. "Ég vildi bara koma og biðjast afsökunar á framferði mínu í dag" sagði hann um leið og félagarnir tveir lögðu af stað upp á efri hæðina. "Ég var bara svo sár yfir því að allt skyldi fyllast hér af löggum þrátt fyrir að ég væri hér í fullum rétti. Ég bara missti mig allveg. Frændinn hefur ekkert leyfi til þess að selja þessa íbúð og systir mín er búin að gefa mér þessa hluti sem eru þar". Um leið og hann sleppti þessum orðum heyrði ég félaga hans brjóta upp glugga með snöggum hvelli. Datt ekki í hug að reyna standa í vegi fyrir félögunum og afsakaði mig á því að ég hefði einungis verið að hugsa um systur hans og hann sjálfan en þar sem hann væri greinilega í fullum rétti þá þyrfti hann ekki að hafa áhyggjur af því að ég skipti mér að þessu í framtíðinni. Enda stóð það á endum á innan við 10 mínútum var búið að bera út í sendiferðabíl ískáp, eldavél, sjónvarp tölvu og allt fullt af öðrum hlutum sem greinilega er hægt að koma í verð. Og síðan voru þeir farnir. Nokkrum dögum seinna hitti ég frændann sem var mættur á staðinn, greinilega enn að selja íbúðina og lét ég hann vita af því að hann væri í órétti og bróðirinn væri sá sem hefði völdin. Svo hlóum við og hann sagðist skilja mig en eins og áður hefði verið rætt þá ætti þessi íbúð að vera mannlaus og síðan festu þeir gluggan enn á ný. 10. mínútum eftir að frændinn fór rak ég augun í bróðirinn sem var á leið inn um gluggan klifjaður innkaupapokum úr Bónus eins og ekkert væri eðlilegra. Hústökubróðirinn hefur síðan alið manninn á efri hæðinni síðan þá ýmist með sprautuvinunum eða börnunum sínum (sem komu og gistu hjá honum a.m.k. 2 daga yfir jólin. Börnin voru reyndar að mestu ein þar sem hann var staddur, að þeirra sögn þegar ég kom upp til þess að kanna hávaða kl. 1:30, í næstu blokk í heimsókn. Þá var mér nóg boðið. sagði krökkunum c.a fjögurra, sex og átta ára, að hætta þessum látum og koma sér í rúmið. Ákveðinn í að gera lögreglu og barnaverndayfirvöldum viðvart daginn eftir til þess að hræða ekki krakkana með lögreglu um miðja nótt(ég veit auðvitað átti ég að hringja strax). Daginn eftir var hustökuliðið hins vegar á bak og braut og daginn þar á eftir voru mætti menn sem hreinsuðu restina af eigum og drasli út úr íbúðinni. Okkur til mikilliar gleði fóru að berast annarskonar læti að ofan nú í morgunn. Nýjir eigendur eru byrjaðir að gera upp íbúðina og fytja vonandi inn sem fyrst. Í gleði minni var ég næstum hlaupinn upp með nýbökuð rúnstykki til þess að bjóða þau velkomin en hélt aftur af mér og ákvað frekar að skora stig hjá Spúsu og vakti hana með morgunmat í rúmið. Maður gerir jú ekkert að óhugsuðu máli.

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hefur Steinríkurinn nú breytt útliti síðunnar. Vonast ég til að breyting þessi muni bæði gleðja lesendur og verða þeim til eggjunar í daglegu amstri.

Annað var það ekki..........

Meðan Laufin sofa....
Published fimmtudagur, janúar 12, 2006 by Lavi.  

Hef tekið eftir því undanfarna daga að það er mjög vinsælt að setja saman lista yfir þetta og hitt. Bestu bækurnar, bestu plöturnar, bestu bíómyndirnar, bestu atburðir o.s.fr. Ég er að velta því fyrir mér að setja saman einhverskonar lista og hvet lesendur mína til þess að koma með hugmyndir af listum sem gaman væri að fá Steinríkinn til að hafa skoðun á.

Sat við eldhúsborðið í kvöld og heyrði óminn af sjónvarpinu. Það var sem sagt verið að tala við Gabríelu nokkra sem sjálfskipaðir menningarvitar og snobbhanar hafa sett á stóran stall. Hún gekk í gegnum verk sitt með Þorsteini J og lýsti því sem fyrir bar og hvað lá á baki þegar listsköpunin varð að veruleika. Eftir ótrúlegan fjölda af "Meðan laufin sofa....." gat ´´eg ekki orða bundist. " Þetta er nú ljóta djöfuls kjaftæðið". Ég veit ekki hvaða verk þetta var og miðað við vídeóverkið sem hún sýndi á listahátíðinni sl. sumar í samvinnu við manninn sem nuddaði tippinu á sér við drifskaft, þá held ég bara að ég vilji ekki vita það. En sem sagt mér finnst Gabríella vera týpiskt dæmi um íslenska lágmenningu. Listamaður sem er hæpaður upp af fjölmiðlum og nýríkum íslendingum er ekki túkallsins virði.

Og þá fæ ég hugmynd lista.
5 ofmetnustu listamenn íslendinga

1. Gabríella Friðriksdóttir (Það er ekki list að maka sig með blóði úr dauðri kind).
2. Stefán Máni (maður verður ekki rithöfundur þó að það standi í símaskránni).
3. Garðar Thor Cortes (Álíka kreistinn rödd og vel notuð tannkremstúpa. Platan hans var valin plata ársins á Bylgjunni, common)
4. Daníel Ágúst
5.

Listinn verður kláraður fyrr en seinna.

Undur og stórmerki gerast enn. Ég var að borða kotasælu og fannst hún bara þokkaleg undir tönn.

Annað var það ekki.........
Til hamingju Ísland
Published sunnudagur, febrúar 05, 2006 by Lavi.  

Þá er Silvía Nótt kominn fyrsta skrefið í áttina að sigri Íslands í Evróvision þrátt fyrir að hafa svindlað. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að farið sé að reglum þegar kemur að keppnum hverskonar (þess vegna kaus ég bara einu sinni í ljósmyndasamkeppninni) og hefði fundist eðlilegt að Silvíu og Þorvaldi væri vísað úr keppni. En þar sem Palli Magg teigði til reglurnar þá eigum við að taka hann á orðinu og senda vitleisinginn Silvíu og gefa skít í þessa keppni. Hún er hvort sem er orðin austantjaldsvitleisa af hæðstu sort.

Annars sýnist mér að það hafi einungis verið þessi 24 lög sem valin voru í undan-undankeppnina, sem send hafi verið inn þar sem mikill meirihluti þeirra er þvílíkt drasl að ég hef ekki heyrt annað eins. Ég er ákveðinn í að senda inn í næstu keppni slatta af lögum þar sem höfundar fá talsverðan pening til að fullklára lagið fyrir sýningu. Hef þau síðan öll í kassagítarútgáfu að hætti Trelle félaga míns og kem til með að vera sigurstranglegur með afbrigðum.

g e
Gítarinn minn
c f
hann er minn en ekki þinn
g e
Já gítarinn minn
a g
verður ávallt minn

Viðlag:
c g
Já já já Gítarinn minn
c d c g a
Gítarinn minn, gítarinn minn, gítarinn minn.
c
Já já já Gítarinn minn
g c a
Gítarinn minn, gítarinn minn, gítarinn minn.

Viðlagið má síðan hækka upp í klassískum Eurovision anda og endurtaka eftir þörfum.
Annað var það ekki........
 ...og verkvitið hef ég frá ömmu minni 
Published fimmtudagur, mars 16, 2006 by Lavi.  


Þá hefur komið í ljós að ég er iðnaðarmaður mikill. Skreið fram úr í morgunn og leit með stolti á skrifstofuálmuna sem fékk seinni málningarumferð eftir körfuboltaæfinguna í gærkveldi. Þá er ég sem sagt búinn að sagast í gegnum vegg, veggir voru einangraðir, gifsplötu sniðnar til og festar upp, dregið á loft og sparstlað í kverkar og síðan málað yfir herlegheitin, tvær umferðir hvorki meira né minna. Í dag er síðan stefnt að gólflögn og síðan verða sett upp skrifborð og vinnuaðstaða (hönnuð af mér að sjálfsögðu).

Annars hefur Tumi Þumall verið óspar á að nýta sér þá vini sem ílengtust í iðnáminu.

Einn af þeim er smiður og kanndi hann mér réttu tökin á gipsinu. Hann er einn af Álfheimagenginu sem dyggir lesendur muna kannski eftir. Fyrir ykkur hin þá tengist Álfheimagengið draum sem mig dreymdi þegar ég var enn að hunkast við staurinn. Í honum var ég í sambandi við stjórnstöð Hreyfils sem bað okkur í Álfheimagenginu að passa upp á að íbúar við Andrésarbrunn og Katrínarlind þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að fá bíl.

En hvað um það. Á meðan mér voru sýnd handtökin við gipsið helltum við upp á vinskapinn með sögum og kaffi. Kom þá í ljós að hann er með fyrirtæki í maganum, þ.e. hann og hans bróðir eru að fara í smíðasamkrull. Helsta vandamálið væri nafn á fyrirtækið. Til þess að borga fyrir aðstoðina hellti ég mér í nýyrðasmíði fyrirtækislega séð. Nokkuð bar á hugmyndum sem byrja á "Allt þetta" eða "Gæða hitt". Reynslan sýnir hins vegar að slík nöfn eru yfirleitt nöfn á skítafyrirtækjum og fúskurum. Það voru þó nokkur nöfn sem okkur fannst koma til greina en að lokum stóðum við eftir með tvö nöfn sem þeir bræður velja um,

Jósep og sonur ehf
Jesú kvistur ehf


Ég mæli með hinu fyrra

Annað var það ekki......
Í Kringlunni
Published þriðjudagur, ágúst 22, 2006 by Lavi.  

"Hvernig finnst þér þetta?" spurði hún og snéri sér í hringi frammi fyrir vinkonu sinni. Sú sat áhugalaus og virtist ekki hafa neinar sérstakar skoðanir á gæðum eða útliti peysutuskunnar sem vinkonan var að máta. Þegar betur var að gáð mátti þó sjá grettu í andliti hennar í hvert sinn sem sú er mátaði snéri baki í hana. "Nú hvernig finnst þér?" ítrekaði mátstúlkan og nú með heldur meiri þjósti í röddinni. "Ha, jú bara flott" svaraði sú skoðanalausa en fyrir mig sem horft hafði á grettuna var greinilegt að henni gat ekki staðið meira á sama. Greinilega orðin hundleið á því að vera stödd í Kringlunni á versta tíma.
Ég var hins vegar vanur. Kann orðið á trixin sem þarf til þess að komast í gegnum venjulega mátunar- og verslunartúr án þess að Spúsa verði ofsalega þreytt á því að eiga svona leiðigjarnan mann. Fara með í fyrstu búðina, sýna áhuga og umfram allt passa sig á því að geispa ekki. Í næstu búð, sem undantekningalaust er skóbúð hristir maður hausinn lítið eitt og læðir út setningum eins og "áttu ekki nóg af stígvélum elskan mín?" eða "ég held að stígvélakvótinn sé uppurinn (ansi er þetta skemmtilegt orð) fram til 2010".
Í framhaldinu er gott að dæsa lítið eitt og lauma að hugmynd hvort maður ætti kannski bara að fara og fá sér kaffisopa. "Jú, elskan mín viltu ekki bara gera það". Óbrigðult....
Ég var sem sagt sendur á kaffihúsið meðan Spúsa og únglíngurinn skoðuðu, spáðu og spekúleruðu. Sat einn með kaffið og flunkunýja skrifblokk fyrir framan mig, tilbúinn til að semja ódauðlegt ljóð eða jafnvel skemmtilega smásögu, þegar ég rak augun í Gweldu og Flísu Sveimhugamóður og var ég ekki lengi að bjóða þeim til borðs. Voru þær stöllur við brullupsfatakaup og hafði gengið vel. Hélt ég þeim að spjalli dágóða stund og greinilegt var að þeim þótti mikið til um hvað ég hafði fram að færa í því spjalli. Það stóð þó ekki lengi því Spúsa mætti með Únglínginn og var þá eins og við manninn mælt að ég gleymdist og kvennaskarinn sameinaðist í skoðun á innihaldi plastpokanna.
Þegar staðið var upp fr´borðinu tjáði Spúsa mér hún þyrfti að fá mig með í verslun þar sem Únglíngurinn hefði tekið frá flík og þyrfti á láni frá föður sínum að halda fram að útborgunardegi. Í stað þess að ganga beint að afgreiðsluborði og reiða fram það fé er þurfti fyrir flíkinni voru þær mæðgur skyndilega komnar að fatahengjum og teknar til við að spá og spekúlera á ný. Ég tillti mér niður á stól og dæsti. "Hvernig finnst þér þetta?" spurði Spúsa og snéri sér í hringi frammi fyrir mér. "Úff, hvað ætli klukkan sé eiginlega orðin" hugsaði ég og gretti mig lítið eitt í hvert skipti sem Spúsa snéri í mig bakinu. "Nú hvernig finnst þér?" ítrekaði Spúsa og nú með heldur meiri þjósti í röddinni. "Ha, jú baraflott" svaraði ég.

Annað var það ekki......

Gleðilegt ár

vekjaraklukka

Á fyrsta vinnudagi ársins býð ég lesendur mína velkomna á nýjan stað. Hér kem ég til með að ala mannin á nýju ári og hef kvatt síðu mína á blogspot.


Hringsson family Christmast Card 2006

Kæra fjölskylda og  vinir um veröld alla! Þá er komið að hinu sívinsæla, árlega fréttabréfi fjölskyldunnar.  Eitt og annað sem hefir á dagana drifið á árinu sem er að líða.  Sumt ekki í frásögur færandi, en annað af einhverju fréttnæmi.Hjónakornin Herbert (39) og Hallbera Agnes (41) eru hamingjusamari en nokkru sinni, þó hún sé komin hátt á fimmtugsaldurinn og hann rétt skriðinn yfir þrítugt!  Öllu gamni slepptu, þá er ekki laust við að hrikt hafi aðeins í stoðunum á árinu.  Það reyndi vissulega á þegar Ming fjölskyldan flutti úr næsta húsi í óskráð heimilisfang.  Jane og Dick (Feng og Shui) er sárt saknað.  Mánaðarleg sveiflukvöld “Dick & Jane and the Hringssons” fóru nokkuð úr böndum og reyndust skapa meiri vandamál en minni.  Jane varð á árinu léttari af litlum dreng, rauðbirknum með skásett augu.  Afar sérstakt, lítið barn, svo ekki sé meira sagt.  Hann var skírður Höður.  Fljótlega eftir fæðinguna voru þau horfin á braut og náðu ekki að kveðja.  Hersi Mána tókst þó að prjóna á þann stutta guðdómlega lopapeysu með íslensku mynstri.Við brotthvarf Ming fjölskyldunnar ákváðu Berti og Bera að finna sér nýtt, sameiginlegt áhugamál og hafa undanfarið verið að bera víurnar í mexikósk hjón sem búa steinsnar frá.  Þau eru heldur treg í taumi en Berti og Bera þykjast þess fullviss að þau séu nú bara feimin fyrst.Hersir Máni (18) fór til Íslands í ágúst og heimsótti Maju frænku í Hrafnagili.  Þar komst hann á mikla handavinnusýningu og heillaðist af íslensku handverki.  “Það var ást að fyrshtu shjón”, eins og hann sagði sjálfur.  Hersir er nú kominn á kaf í tískuhönnun úr þæfðri ull og stefnir á að taka þátt í Hlaupvegarverkefninu mikla á næsta ári.  Öðrum fjölskyldumeðlimum þykir stundum nóg um ákafann og þakka fyrir að drengurinn hafi ekki álpast út á Dalvík í heimsókninni, þá væri hann sjálfsagt kominn í saltfiskvöffluframleiðslu eða sæeyrnaeldi.  Vissulega minni lykt af þæfðri ull...  En að sjálfsögðu styður fjölskyldan Hersi Mána af heilum hug.  Georg vinur hans gerir það líka og tekur ríkulegan þátt í saumaskapnum, enda snillingur í að bródera blóm, pilturinn sá.Hersir var ekki sá eini úr fjölskyldunni sem heimsótti gamla landið á árinu.  Jón litli varð tíu ára þann 1. apríl og í kjölfarið var ákveðið að senda hann í sauðburð til ömmu Helgu á Íslandi.  Þetta var að undirlagi Föður O’Brian, sem taldi sauðburðinn geta haft góð áhrif á drenginn, þar sem önnur úrræði til þess gerð að hrista óværuna úr sál drengsins höfðu fram að þessu misheppnast.  Það er skemmst frá því að segja að amma Helga sendi pilt til baka að tveimur dögum liðnum.  Þá var afi Hringur fluttur að heiman, traktorinn ónýtur, klósettin stífluð og Snati gamli dauður.  Fjölskyldan var að því komin að gefast upp á drengnum þegar hún uppgötvaði vúdú.  Síðan títiprjónadúkkan kom inn á heimilið hefur lífið verið allt annað.  Jón litli er sem nýr, er svo til hættur að tjá sig með hvæsi og skóm og jafnvel aðeins farinn að leika við póstmanninn.  Guð láti gott á vita.Hera Sól (15) hefur ekki fundið hjá sér þörf fyrir að fara til Íslands, þrátt fyrir mikla hvatningu.  Hún lenti í því mikla áfalli á miðju sumri að slæðast inn í sértrúarsöfnuð.  Hún hélt að hún væri að fara í útilegu með öðrum gotneskt þenkjandi ungmennum.  “Manson-helgi” stóð í auglýsingunni.  Hún var horfin í þrjár vikur og komst heim við illan leik.  Þá fór hún sem Ajax-stormur yfir herbergið sitt og málaði það bleikt.  Nú hlustar hún helst á Justin Timberlake og nöfnu sína, Heru.  Gotnesku áhrifin eru alveg horfin.  Hún tók þátt í uppfærslu á Hárinu á ís í október og fékk góða dóma í Ostafréttum og Vikublaðinu.  Í ljós hefir líka komið að stúlkan er örlítið skáld og liðtækur þýðandi og liggja nú þegar eftir hana fjölmargar ljóðaþýðingar úr ensku á íslensku.  Fjölskyldan er alltaf jafnstolt af Sólinni sinni.Hringsson fjölskyldan er staðráðin í því að taka þátt í raunveruleikaþætti á næsta ári, ef ekki allir meðlimir þá a.m.k. einn.  Hallberu þykir hún hafa alla burði til þess að verða gjaldgeng í “Frægum í formi” hér í Kanada, enda hefur hún aðeins skvapast af ostaáti síðustu ára.Herbert fékk tímaritið “Séð og heyrt” sent til sín frá Íslandi og fékk þá snilldarhugmynd að hefja útgáfu á systurriti þess hér í Ingersolli.  Ekki vanþörf á svona vönduðu, vikulegu menningarriti fyrir verkalýðinn hér.  Í kjölfarið stofnaði hann útgáfufélagið .....  Auk þess að gefa út tímaritið “Sea and her” var ráðist í útgáfu jólakvers, þar sem m.a. er gefinn forsmekkur að ljóðaþýðingum heimasætunnar.  Stefnt er að frekari landvinningum á nýju ári. Við óskum ykkur öllum Maríu Kristmars. Ykkar vinir;  Berti, Bera, Hersir, Hera og Jón.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ólafur Þórðarson
Ólafur Þórðarson
Hugleiðingar miðaldra manns með vaxandi áhyggjur af líkamsþyngd sinni.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband