26.11.2006 | 15:58
Hringsson family Christmast Card 2006
Kæra fjölskylda og vinir um veröld alla! Þá er komið að hinu sívinsæla, árlega fréttabréfi fjölskyldunnar. Eitt og annað sem hefir á dagana drifið á árinu sem er að líða. Sumt ekki í frásögur færandi, en annað af einhverju fréttnæmi.Hjónakornin Herbert (39) og Hallbera Agnes (41) eru hamingjusamari en nokkru sinni, þó hún sé komin hátt á fimmtugsaldurinn og hann rétt skriðinn yfir þrítugt! Öllu gamni slepptu, þá er ekki laust við að hrikt hafi aðeins í stoðunum á árinu. Það reyndi vissulega á þegar Ming fjölskyldan flutti úr næsta húsi í óskráð heimilisfang. Jane og Dick (Feng og Shui) er sárt saknað. Mánaðarleg sveiflukvöld Dick & Jane and the Hringssons fóru nokkuð úr böndum og reyndust skapa meiri vandamál en minni. Jane varð á árinu léttari af litlum dreng, rauðbirknum með skásett augu. Afar sérstakt, lítið barn, svo ekki sé meira sagt. Hann var skírður Höður. Fljótlega eftir fæðinguna voru þau horfin á braut og náðu ekki að kveðja. Hersi Mána tókst þó að prjóna á þann stutta guðdómlega lopapeysu með íslensku mynstri.Við brotthvarf Ming fjölskyldunnar ákváðu Berti og Bera að finna sér nýtt, sameiginlegt áhugamál og hafa undanfarið verið að bera víurnar í mexikósk hjón sem búa steinsnar frá. Þau eru heldur treg í taumi en Berti og Bera þykjast þess fullviss að þau séu nú bara feimin fyrst.Hersir Máni (18) fór til Íslands í ágúst og heimsótti Maju frænku í Hrafnagili. Þar komst hann á mikla handavinnusýningu og heillaðist af íslensku handverki. Það var ást að fyrshtu shjón, eins og hann sagði sjálfur. Hersir er nú kominn á kaf í tískuhönnun úr þæfðri ull og stefnir á að taka þátt í Hlaupvegarverkefninu mikla á næsta ári. Öðrum fjölskyldumeðlimum þykir stundum nóg um ákafann og þakka fyrir að drengurinn hafi ekki álpast út á Dalvík í heimsókninni, þá væri hann sjálfsagt kominn í saltfiskvöffluframleiðslu eða sæeyrnaeldi. Vissulega minni lykt af þæfðri ull... En að sjálfsögðu styður fjölskyldan Hersi Mána af heilum hug. Georg vinur hans gerir það líka og tekur ríkulegan þátt í saumaskapnum, enda snillingur í að bródera blóm, pilturinn sá.Hersir var ekki sá eini úr fjölskyldunni sem heimsótti gamla landið á árinu. Jón litli varð tíu ára þann 1. apríl og í kjölfarið var ákveðið að senda hann í sauðburð til ömmu Helgu á Íslandi. Þetta var að undirlagi Föður OBrian, sem taldi sauðburðinn geta haft góð áhrif á drenginn, þar sem önnur úrræði til þess gerð að hrista óværuna úr sál drengsins höfðu fram að þessu misheppnast. Það er skemmst frá því að segja að amma Helga sendi pilt til baka að tveimur dögum liðnum. Þá var afi Hringur fluttur að heiman, traktorinn ónýtur, klósettin stífluð og Snati gamli dauður. Fjölskyldan var að því komin að gefast upp á drengnum þegar hún uppgötvaði vúdú. Síðan títiprjónadúkkan kom inn á heimilið hefur lífið verið allt annað. Jón litli er sem nýr, er svo til hættur að tjá sig með hvæsi og skóm og jafnvel aðeins farinn að leika við póstmanninn. Guð láti gott á vita.Hera Sól (15) hefur ekki fundið hjá sér þörf fyrir að fara til Íslands, þrátt fyrir mikla hvatningu. Hún lenti í því mikla áfalli á miðju sumri að slæðast inn í sértrúarsöfnuð. Hún hélt að hún væri að fara í útilegu með öðrum gotneskt þenkjandi ungmennum. Manson-helgi stóð í auglýsingunni. Hún var horfin í þrjár vikur og komst heim við illan leik. Þá fór hún sem Ajax-stormur yfir herbergið sitt og málaði það bleikt. Nú hlustar hún helst á Justin Timberlake og nöfnu sína, Heru. Gotnesku áhrifin eru alveg horfin. Hún tók þátt í uppfærslu á Hárinu á ís í október og fékk góða dóma í Ostafréttum og Vikublaðinu. Í ljós hefir líka komið að stúlkan er örlítið skáld og liðtækur þýðandi og liggja nú þegar eftir hana fjölmargar ljóðaþýðingar úr ensku á íslensku. Fjölskyldan er alltaf jafnstolt af Sólinni sinni.Hringsson fjölskyldan er staðráðin í því að taka þátt í raunveruleikaþætti á næsta ári, ef ekki allir meðlimir þá a.m.k. einn. Hallberu þykir hún hafa alla burði til þess að verða gjaldgeng í Frægum í formi hér í Kanada, enda hefur hún aðeins skvapast af ostaáti síðustu ára.Herbert fékk tímaritið Séð og heyrt sent til sín frá Íslandi og fékk þá snilldarhugmynd að hefja útgáfu á systurriti þess hér í Ingersolli. Ekki vanþörf á svona vönduðu, vikulegu menningarriti fyrir verkalýðinn hér. Í kjölfarið stofnaði hann útgáfufélagið ..... Auk þess að gefa út tímaritið Sea and her var ráðist í útgáfu jólakvers, þar sem m.a. er gefinn forsmekkur að ljóðaþýðingum heimasætunnar. Stefnt er að frekari landvinningum á nýju ári. Við óskum ykkur öllum Maríu Kristmars. Ykkar vinir; Berti, Bera, Hersir, Hera og Jón.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Spurt er
Hvað var/er besta súkkulaðikexið?
Tenglar
Vandalausir
Þeir sem ég les reglulega
Vandamenn
Ég og mínir
- Prinsupessan Prinsupessan
- Mussan Hugleiðingar leynimussu
- Sveimhugi Stopular hugleiðingar miðaldra manns
- Frussan Frussungar hugleiða
- Mákonan Hugleiðingar miðaldra konu í Danmörku
- Skottan Hugleiðingar miðaldara konu í Danmörku
- Gamla bloggið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.